Nóg að gera á nýju ári..

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Það er nú ekki mikið í fréttum þessa dagana, nema kannski það að söngurinn gengur rosalega vel.. Er að fara að syngja út á KR á laugardaginn og það er fyrst gigg þessa árs.. 

Af öðru þá gengur lífið náttúrulega sinn vanagang og alltaf nóg að gera. Söngurinn verður í fyrirrúmi þetta árið og markmiðið að vera með tónleika í Ágúst stendur enn. Áramótaheitið er að standa við markmiðið, njóta lífsins með vinum og fjölskyldu, mæta í Ketilbjöllurnar, og vera trú sjálfri mér.. Held þetta sé nokkuð gott í bili varðandi áramótaheitið. Sum þeirra eru þó af persónulegri kantinum og verða ekki sögð hér..

Fyrir kórinn get ég sagt að hann getur enn tekið við nýjum félögum og þá bendi ég á síðuna http://www.voxacademica.net og voxacademica@gmail.com. Við erum að fara að byrja að æfa H-moll messuna eftir Bach.

Svo er nýr Getraunaleikur að byrja fljótlega út á KR og ég bendi öllum KR-ingum á skrá sig í hann. Rosalega gaman og glæsilegir vinningar..

Reyni kannski þetta árið að láta heyra meira af mér hér á þessari síðu..


Carmina Burana 22. nóvember kl. 20.00 í Grafarvogskirkju

Langt síðan síðast og er ástæðan fyrir því að ég er of dugleg í öðru. Nú er komin hins vegar tími til að láta vita af mér aftur og hér kemur smá pistill.

Í söngnum er nóg að gera, ég er búin að vera á fullu að vinna að tónleikum sem ég mun standa fyrir í ágúst 2009. í nægu er að snúast því ég hef komist að því að það er ekki auðvelt að setja saman prógramm fyrir tónleika og sem betur fer á ég nú góða að sem ég get sótt aðstoð til í þeim efnum. Er þó komin með um 30 mínútur af prógramminu og ætla ég að flytja Kindertotenlieder eftir Malher. Þetta er einstaklega fallegur ljóðabálkur og krefst mikillar alúðar í flutningi. Er búin að vera vinna þessi ljóð í sumar og núna í haust en vantar nauðsynlega að ákveða prógramm fyrir seinni part tónleikanna. Er einnig búin að vera á fullu í söngnámi og röddin að stækka og blómstra. S.s. allt að gera sig í þeim efnum.

Kórinn minn Vox academica byrjaði á fullu í september og erum við að fara að flytja Carminu Burana, með 55 manna hljómsveit, flottum einsöngvurum og náttúrulega flottasta kórnum. Wink  

Tónleikarnir verða í Grafarvogskirkju 22. nóvember kl. 20.00  og hægt nálgast miða og upplýsingar um miðaverð á http://www.voxacademica.net

Einnig ætla ég að skella mér norður að syngja Carminu með óperukórnum og fleirum í Varmahlíð. Upplýsingar um þetta ætti að vera hægt að finna http://www.operukorinn.is/wordpress/

Að öðru þá líður tíminn afskaplega hratt og er það nú líklegast af því ég hef mikið að gera. Ástríður dóttir mín blómstrar og er alltaf glöð og ánægð. Hún byrjaði í öðrum bekk og svo eru hún í nokkrum aukagreinum eins og tónlistarskóla, kór, fótbolta hjá KR og í fimleikum. Þetta gerir það að verkum að maður lendir nokkuð mikið í að keyra sækja og senda.  En maður kvartar ekki yfir þessu heldur þakkar fyrir heilbrygði og heilsu barnsins síns. 

Tíðin er þó ekki sú besta núna og yngra fólk þjóðarinnar á barmi gjaldþrots sem gerir það að verkum að margir munu þurfa aðstoð svo þeir þurfi ekki að missa aleiguna sína, steypuna sem þeir settu sig í skuldir yfir. Ég er víst ein af þeim sem keypti bíl með myntkörfuláni, og svo er ég með íbúðarlán sem óvart hækkaði um rúmlega 3 milljónir frá tökudegi. Það mun aldrei lækka aftur en myntkarfan gæti reddast um leið og krónan fer á flot.. Spurningin er samt þessi, viljum við krónu? Getum við hengt krónuna við annan gjaldmiðil svo hún dangli ekki alltaf bara einhversstaðar og 300.000 hræður á stórri eyju vita aldrei í hvorn fótinn þeir eigi að stíga og hverjum sé treystandi. Því þeir sem sögðu að þetta myndi aldrei verða svona eins og það er í dag, eru enn við völd og segja að þetta verði erfitt en lagist. Jæja nú er ég búin að kvarta aðeins, sem er ekki nógu gott því að öllu jöfnu er ég mjög glöð og ánægð manneskja. 

Að lokum þessarar færslu þá verð ég að minna alla þá á sem kíkja hér á og lesa yfir að vera góðir við náungann og sýna vinum og vandamönnum, alúð og umhyggju... Smile

 


Mbl Gagnrýni tónleika Vox academica - Verdi Requiem.

Þá erum við loksins búin að fá gagnrýni fyrir tónleikana okkar og eru þetta glæsilegir dómar þó svo að það mætti skrifa ögn meira og kannski setja mynd. Leyfi gagnrýninni að fylgja hér með og vona að hún fái að lifa hérna aðeins. SmileVox academica

Föstudaginn 11. apríl, 2008 - Tónlist

TÓNLIST - Hallgrímskirkja

Dagur reiði, dagur bræði

Kórtónleikar****½ (mest 5)

Verdi: Sálumessa. Flytjendur voru Vox academica og Jón Leifs Camerata undir stjórn Hákons Leifssonar. Einsöngvarar: Sólrún Bragadóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Gissur Páll Gissurarson og Kristinn Sigmundsson. Laugardagur 5. apríl.

ÞEGAR ég var á leiðinni í Hallgrímskirkju á laugardaginn til að hlusta á Sálumessu Verdis hringdi vinkona mín í mig. Ég sagði henni hvert ég væri að fara, og spurði hvort hún ætlaði líka. Nei, hún hafði ekki áhuga. Henni fannst ekkert spennandi að heyra svo lítinn kór sem Vox academica óneitanlega er flytja þetta verk, ásamt smávaxinni kammersveit. Sálumessan væri voldug tónsmíð sem þyrfti voldugan kór og volduga hljómsveit.

Það var nokkuð til í þessu hjá henni. Sálumessa Verdis var á sínum tíma frumflutt af 120 manna kór og 100 manna hljómsveit, en tónskáldið sjálft stjórnaði. Núna átti hún að vera flutt af 75 söngvurum og rúmlega 50 hljóðfæraleikurum.

En upplifunin kom á óvart. Ríkuleg endurómunin í Hallgrímskirkju magnaði söng kórsins og gerði hann breiðan og hljómfagran. Og leikur hljómsveitarinnar kom merkilega vel út undir yfirvegaðri stjórn Hákons Leifssonar.

Hákon vissi upp á hár hvernig átti að nýta hljómburð kirkjunnar. Ekki aðeins varð allt breiðara og stærra, heldur hjálpaði hljómburðurinn til að gera verkið mun ógnvænlegra en maður átti von á. Gott dæmi um það var bassatromma Kjartans Guðnasonar. Kirkjan bókstaflega hristist í hvert sinn sem hún hljómaði. Það var eins og þegar risaeðlan birtist í skóginum í kvikmyndinni Jurassic Park! Pákuleikur Eggerts Pálssonar var líka áhrifamikill og skapaði réttu stemninguna. Þar var dauðinn svo sannarlega nálægur.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt upphaf Dies irae-kaflans jafn glæsilegt á tónleikum hér á landi. Það er langlengsti þáttur sálumessunnar, og fjallar um dómsdag. Upphafsorðin eru þessi: „Dagur reiði, dagur bræði, drekki jörð með logaflæði." Kröftugur söngurinn og hljóðfæraleikurinn í hljómburðinum í Hallgrímskirkju gerði að verkum að maður sá það allt ljóslifandi fyrir sér.

Einsöngvarar voru þau Sólrún Bragadóttir, Rannveig Fríða Bragadóttir, Gissur Páll Gissurarson og Kristinn Sigmundsson. Þau stóðu sig öll prýðilega. Raddir þeirra blönduðust ákaflega fallega og féllu vel inn í heildarhljóminn. Sérstaklega verður að nefna frammistöðu Sólrúnar, en það bókstaflega geislaði af henni.

Ljóst er að Verdi sneri sér ekki í gröfinni í þetta sinn.

Jónas Sen

 

 


Hvað er að frétta.......

Það er búið að vera brjálað að gera hjá mér. Var að syngja Verdi Requiem um helgina fyrir troðfullri Hallgrímskirkju. Þetta var geggjuð og magnþrungin upplifun. Rúv tók upp tónleikana og ég skal láta vita þegar á að flytja þá í útvarpinu.Smile  Einsöngvararnir voru æðislegir, hljómsveit frábær og við Voxið geggjuð. Þetta er náttúrulega bara mitt mat, en þeir sem hafa talað við mig eftir tónleika eru á sama máli. 

Að öðru söngtengdu þá er ég að fara að taka mér nokkuð góðan tíma í að þjálfa mína rödd, mikið af söngtímum, mastersklössum og sjálfsnámi framundan. Stefni á að vinna að Bach kantötu með Kára organista. Stefni líka að því að bjóða fram söng minn í Neskirkju. Vera dugleg að æfa mig og fá þjálfun. Verð eitthvað á vappinu erlendis, fer til Danmerkur og svo á ráðstefnu í San Diego CA. Þannig að það er í nægu að snúast.

Af fjölskyldulífinu er það að frétta að dóttirin dafnar rosalega vel, hún blómstrar í því sem hún gerir. Alltaf á útopnu í að hreyfa sig, syngur eins og engill í kórnum sínum og spilar eins og herforingi á blokkflautuna sína auk þess sem hún stefnir hátt sem tónskáld. Hún hefur verið dugleg að setjast við píanóið og búa til lög og texta, auk þess að grípa í blokkflautuna til að fá fjölbreytnina. Ég vona bara að þetta þróist áfram og að hún njóti þess rosalega að halda áfram tónlistarnáminu.

Ég læt þetta duga í bili..


Hilsen fra Norge

hei alle sammen,

Gleðileg jól og farsælt komandi ár frá stórfjölskyldunni hér í Noregi.

Jólakveðja,

Þóra og Ástríður.Smile


Litla daman 6 ára.

Loksins er langþráður dagur runninn upp í lífi dóttur minnar. Hún er í dag 6 ára og er að springa úr spenningi yfir afmælisboðinu seinni partinn.  Hún er nokkuð lík  mömmu sinni að þessu leiti. Þannig að stelpurnar í bekknum munu mæta í afmæli í dag eftir skóla svo það verður örugglega mikið fjör og gaman.

Verð að segja frá laugardeginum 15. desember. Dagurinn byrjaði á afmælisboði dóttir minnar fyrir ættingja og vini, síðan var ég svo heppin að Valli frændi bauð mér og mömmu á tónleika Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju og vorum við mætt þangað klukkan 16:15, mjög tímanlega til að fá góð sæti. Tónleikarnir voru í alla staði frábærir, einsöngvarar úr röðum kórfélaga voru mjög fínir og þessi stund í alla staði mjög hátíðleg. Eftir tónleikana fór ég svo á jólahlaðborð með vinnufélögum sem haldið var í Iðusölum, Lækjargötu. Kvöldið var í alla staði frábært, maturinn æðislegur og nóg af honum, við í starfmannafélaginu fengum Davíð Ólafsson Bassa og Stefán Helga Stefánsson tenór til að skemmta og er bara eitt orð til um þá, FRÁBÆRIR. Enda líka held ég að allir hafi skemmt sér konunglega og er enn verið að tala um velheppnað jólahlaðborð. Síðar um kvöldið fórum við nokkur að dansa á Thorvaldsen og vorum við það heppinn að eiga dansgólfið í nokkurn tíma, þannig að mikið var dansað. Að lokum fór ég svo heim, ánægð og glöð eftir vel heppnað kvöld.

Að öðru, þá er ég búin að kaupa allar jólagjafirnar nema fyrir mömmu, ég lendi alltaf í vandræðum með hana og veit aldrei hvað ég á að kaupa. Svo er ég með ættingja erlendis sem lenda í því þetta árið að fá gjafirnar milli jóla og nýárs. Ég bara skil ekki hvað varð af desember! Tíminn hvarf og allt í einu eru komin jól og nokkurn veginn allt eftir. Það eru þó bara 3 dagar þangað til við förum til Noregs og ég hlakka svo til að komast að hitta bróður minn og hans fjölskyldu. Það er ekki eins mikið stress þar og hér fyrir jólin. Næstu dagar hér fara þó í það að vinna, pakka inn jólagjöfum, keyra út pakka til þeirra sem verða hér, pakka til ferðalagsins, þrífa íbúðina og reyna svo á fimmtudagskvöldinu að hitta Möggu í súpu á Asíu. Ef ég næ þessu öllu þá er ég ánægð. 

Hvernig finnst ykkur veðrið hafa verið uppá síðkastið. Ég er að verða brjáluð sérstaklega þar sem handklæðin mín duga varla til að stöðva vatnsstrauminn sem bullar inn um rúðurnar. Sérstaklega þá á einum stað og síðustu nætur hef ég þurft að skipta um handklæði á sirka 3 tíma fresti og þau eru rennandi blaut. Ég hef bara aldrei lent í öðru eins veseni. 

Þar sem ég held að þetta verði síðasta bloggfærsa fyrir jól, þá óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla. 

 


Brjálað að gera

Síðustu daga er búið að vera nokkuð brjálað að gera hjá mér, enda finn ég fyrir smá þreytu. Það eru þó skemmtilegir tímar framundan og ég á eftir að gera allt fyrir jólin. Ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf og það verður örugglega ekki gert fyrr en á síðustu stundu.

Tónleikarnir okkar hjá voxinu gengu rosalega vel og allir ánægðir. Nú bíður maður bara eftir upptökunni til að staðfesta það að okkur hafi gengið nokkuð vel. Vona síðan að við byrjum í næstu viku að æfa Verdi Requiem, það er nefnilega rosalega flott músík og ég hlakka mikið til að flytja það verk. Að öðru þá er ég að fara að syngja Mozart Requiem í nótt með óperukórnum og svo síðasta giggið í bili verður á fimmtudagskvöldið hjá KR konum. Þar mun ég syngja einsöng og dúetta með Kristínu auk þess sem hann Kári ætlar að spila með okkur. Ég er nokkuð viss um að það verði góð stund, enda líka erum við að tala um góðan hóp fólks.

Ég er mikið búin að vera að spá í það hvort ég er að keyra mig of mikið þessa dagana og kemst alltaf að sömu niðurstöðu. Svarið er jú, en á móti þá er svo gaman að syngja og koma fram að það bætir svo mikið tilveruna hjá manni og vonandi um leið veitir öðrum gleði og þá hlýtur þetta að vera í lagi. Síðan segir maður alltaf, þetta reddast og þá er maður í raun búin að afgreiða þá hugsun.  Það sem veitir manni gleði í lífinu verður maður að veita sér tíma til og reyna að útbreiða þann boðskap örlítið. 

Næstu daga verður nóg að gera og svo um helgina þá verður hún Ástríður dóttir mín með sinn fyrsta blokkflautu konsert í Neskirkju og um kvöldið þá koma frændur mínir með börn og konur í mat og ætlum við að eyða skemmtilegri kvöldstund saman. Við mæðgur ætlum síðan að toppa helgina með því að fara á skilaboðaskjóðuna. Eins og ég segi, aldrei dauð stund og mjög gaman.

Þangað til næst, þá kveð ég og óska ykkur alls hins besta.

 


Góðar fréttir

Ég fékk símtal frá einum minna eldri og betri vina í gærkveldi. Hann var á leið til Köben í afslöppun eftir mikla vinnutörn. Hann tjáði mér það að hann og konan væru að fjölga mannkyninu. Rosalega varð ég glöð að heyra þetta, sérstaklega þegar tímarnir hafa verið svolítið erfiðir. Þannig að búist er við yndislegu vori.

Að öðru, þá er ég búin að vera að vinna svo mikið að á aðfangadag verð ég að öllum líkindum eins og VR auglýsingarnar, sofandi ofan í jólagrautnum. Kannski verður það ekki svo slæmt en eins og staðan er núna þá hef ég unnið frá morgni til kvölds alla þessa viku auk helganna. Þó að vinnan sé mikil þá er náttúrulega líka mikið að gera í söngnum þessar vikur. Þessa viku voru 3 kóræfingar, mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Verst var þó að ég er búin að vera jafnt og þétt að missa röddina, þannig að á endanum hringdi ég í Einar Thor. lækni og fékk tíma. Svo staðan núna er sú að ég er að fara í steragufu nr. 3 á eftir, auk þess sem ég er komin á rótsterk fúkkalyf og það "besta" var að hann sprautaði í tungurótina deyfilyfi svo ég næði afslöppun. Þetta hafði víst eitthvað að gera með álagið síðustu vikurnar. Nóg um þetta, ég er á batavegi, röddin að koma aftur og ég get sungið alla helgina. Þarf nefnilega helst að vera á 2 æfingum á sama tíma, æfingabúðir settar á sama tíma hjá kórunum sem ég syng með. Þá er bara að skipta jafnt á milli.

Munið svo að mæta 30. nóvember í Langholtskirkju að hlusta á Vox academica flytja Gloriu e. Poulenc og Jólakantötu e. Honegger, 50 manna hljómsveit og 2 ungum einsöngvurum, Bylgju Dís Gunnarsdóttur sópran og Benedikt Ingólfssyni Barítón. Þið fáið þá líka að heyra Hallelúja kórinn úr Messías og eitthvað fleira.

Hlakka til að sjá ykkur.Smile

Í kvöld er síðan aðalfundur ArcÍs sem er notendafélag um ESRI hugbúnað. Það verður örugglega gaman og kannski sérstaklega þar sem ég loksins hef nægilega ástæðu til að draga mig út úr stjórn og hætta sem formaður. Ég er búin að vera lengi formaður og þetta hefur verið rosalega gaman en nú er komin tími á að nýir félagar taki völdin og geri betur.

Annað er svo sem lítið í fréttum, lífið gengur sinn vanagang og ég er farin að hlakka til jólanna.

Óska öllum góðrar helgar Wink


Yndisleg helgi framundan og góðir tímar.

Er að fara í sumarbústað á eftir með dóttur mína, vinkonu minni og sonum hennar. Þar sem ekki er spáð miklu útveðri þá verður þetta mikil nautnahelgi, góðs matar, sjónvarpsgláps, spilastunda og náttúrulega ögn af rauðvíni fylgir. Ég er búin að hlakka mikið til þessarar helgar þó sérstaklega eftir að afi minn féll frá.

Það sem hefur verið að gerast hjá mér bara síðustu daga að ég bætti smá verkefni á mig. Ég talaði við Garðar Cortes og spurði hvort ég mætti syngja með í Mozart Requiem sem flutt verður í byrjun desember rétt eftir miðnætti. Svarið var já, þannig að nú er ég aðeins að syngja með óperukórnum í þessu verkefni. Kosturinn er að ég kann verkið utanað og þarf eingöngu að einbeita mér að því hvernig Garðar vill flytja verkið. Mér þykir ofboðslega vænt um þetta verk og svo er verið að minnast þeirra tónlistarmanna sem hafa unnið með óperukórnum og hafa látist á árinu og þar er afi minn einn þeirra. Þannig að mér þykir mjög vænt um að taka þátt í þessari uppfærslu. Hlakka mikið til og vona náttúrulega að sem flestir mæti. Síðan er voxið á fullu að æfa fyrir tónleikana 30 nóvember og ég er næstum því búin að læra þau verk utan að þannig að ég er farin að geta einbeitt mér meira að því hvernig Tumi vill flytja þau verk. Þannig að næstu vikur verður mikið um söng, tala nú ekki um ef ég fæ smá tíma hjá Nonna söngkennara til að bæta mig sem söngvara. Miklar framfarir hjá mér og nóg að gera. Smá fréttir af einsöng þá er einn í kórnum mínum organisti hjá óháða söfnuðinum og ég bað um fleiri verkefni þaðan, svo við ætlum að byrja að vinna að einhverjum flottum verkum eftir jól og þá vonandi halda tónleika. Hann er líka með kór þannig að hver veit hvað verður úr því, minnsta kosti er ég mjög spennt fyrir þessu. 

Jæja, þá er komið að því að fara að skrá niður hluti sem þarf að pakka niður og kaupa fyrir ferðalagið í bústaðinn. 

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar og þakka hlýjar kveðjur til mín og fjölskyldu síðustu daga. 


Kveðja til afa, Guðmund Jónsson

Við kveðjum í hinsta sinn með miklum söknuði hann afa okkar, vel vitandi að hann er komin á góðan stað. Okkur langar að minnast tíma okkar á Hagamelnum og þeirra frábæru stunda sem við áttum þar með afa og ömmu. Hagamelurinn var okkar annað heimili og þar fengum við oft að gista. Þá sá afi um að viðhalda barnatrúnni og fór með faðirvorið með okkur þegar kominn var háttatími. Hann var líka duglegur að stunda sundið og við fengum oft að fljóta með. Afi þekkti alla á leiðinni út í Vesturbæjarlaug og við munum vel hvað við vorum stolt þegar hann kynnti okkur fyrir fólkinu og sagðist vera svo ríkur að eiga okkur. Það var fátt sem haggaði afa og hann tók flestu með stóískri ró. Einu sinni sem oftar fengum við að fara með afa á tónleika. Hann var að fara að syngja í óperunni Ótelló í Háskólabíó, uppáklæddur í kjól og hvítt. Á leiðinni út í bíó var keyrt inn í hliðina á volvónum. Afi steig út úr bílnum alveg pollrólegur. Hann sagði mönnunum að hann væri smá tímabundinn, væri að fara að syngja og þetta yrði bara leyst seinna. Stuttu síðar var afi mættur á réttum tíma og tróð upp án þess að láta nokkuð á sig fá. Svo blikkaði hann til okkar í miðju klappi, en það gerði hann oft. Ein jólin var mamma með ákveðið þema í gangi heima hjá okkur og allt var skreytt í rauðu, grænu og könglum. Þá fórum við bara til ömmu og afa og skreyttum tréð hjá þeim. Þar voru jólakúlurnar marglitar og af ýmsum gerðum. Á jóladag fórum við alltaf með afa niður í Útvarp á jólaball. Það fannst okkur frábært og eftir ballið sá afi um að útdeila “slikkeríi” og jólaeplum til allra krakkanna. Afi var ekki mjög handlaginn en hann var hins vegar einstaklega góður í að pakka fyrir ferðalög. Einu sinni vorum við að fara austur í bústað í Laugardalnum og afi var búinn að troða svo miklu í skottið að bílinn tók niðri í fyrstu beygju. Þá var snúið við, létt aðeins á farminum og farnar tvær ferðir. Minningarnar eru margar og góðar og þegar við byrjuðum að rifja upp æsku okkar í sameiningu komu endalaust fleiri upp í hugann og við fylltumst gleði og þakklæti. Hann var afi okkar og lét okkur aldrei gleyma hversu vænt honum þótti um barnabörnin sín. Elsku afi, við þökkum þér og ömmu samfylgdina. Við erum rík að hafa átt ykkur.

Þóra og Mummi


Næsta síða »

Um bloggið

Þóra H. Passauer

 

Þóra Hermannsdóttir Passauer
Þóra Hermannsdóttir Passauer

39 átta ára gömul á dóttur sem heitir Ástríður. Einnig á ég frábæra vini, er í skemmtilegum og góðum konsert kór og þegar ég er ekki í vinnunni þá er ég að læra að syngja, halda heimili, út á KR, í Ketilbjöllum og að njóta lífsins.

Ps. Elska að bjóða skemmtilegu fólki í mat og spjall.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Helena og Ástríður sumarið 2008
  • Ástríður og Helena sumarið 200
  • Vox academica

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 560

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband