Góðar fréttir

Ég fékk símtal frá einum minna eldri og betri vina í gærkveldi. Hann var á leið til Köben í afslöppun eftir mikla vinnutörn. Hann tjáði mér það að hann og konan væru að fjölga mannkyninu. Rosalega varð ég glöð að heyra þetta, sérstaklega þegar tímarnir hafa verið svolítið erfiðir. Þannig að búist er við yndislegu vori.

Að öðru, þá er ég búin að vera að vinna svo mikið að á aðfangadag verð ég að öllum líkindum eins og VR auglýsingarnar, sofandi ofan í jólagrautnum. Kannski verður það ekki svo slæmt en eins og staðan er núna þá hef ég unnið frá morgni til kvölds alla þessa viku auk helganna. Þó að vinnan sé mikil þá er náttúrulega líka mikið að gera í söngnum þessar vikur. Þessa viku voru 3 kóræfingar, mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Verst var þó að ég er búin að vera jafnt og þétt að missa röddina, þannig að á endanum hringdi ég í Einar Thor. lækni og fékk tíma. Svo staðan núna er sú að ég er að fara í steragufu nr. 3 á eftir, auk þess sem ég er komin á rótsterk fúkkalyf og það "besta" var að hann sprautaði í tungurótina deyfilyfi svo ég næði afslöppun. Þetta hafði víst eitthvað að gera með álagið síðustu vikurnar. Nóg um þetta, ég er á batavegi, röddin að koma aftur og ég get sungið alla helgina. Þarf nefnilega helst að vera á 2 æfingum á sama tíma, æfingabúðir settar á sama tíma hjá kórunum sem ég syng með. Þá er bara að skipta jafnt á milli.

Munið svo að mæta 30. nóvember í Langholtskirkju að hlusta á Vox academica flytja Gloriu e. Poulenc og Jólakantötu e. Honegger, 50 manna hljómsveit og 2 ungum einsöngvurum, Bylgju Dís Gunnarsdóttur sópran og Benedikt Ingólfssyni Barítón. Þið fáið þá líka að heyra Hallelúja kórinn úr Messías og eitthvað fleira.

Hlakka til að sjá ykkur.Smile

Í kvöld er síðan aðalfundur ArcÍs sem er notendafélag um ESRI hugbúnað. Það verður örugglega gaman og kannski sérstaklega þar sem ég loksins hef nægilega ástæðu til að draga mig út úr stjórn og hætta sem formaður. Ég er búin að vera lengi formaður og þetta hefur verið rosalega gaman en nú er komin tími á að nýir félagar taki völdin og geri betur.

Annað er svo sem lítið í fréttum, lífið gengur sinn vanagang og ég er farin að hlakka til jólanna.

Óska öllum góðrar helgar Wink


Yndisleg helgi framundan og góðir tímar.

Er að fara í sumarbústað á eftir með dóttur mína, vinkonu minni og sonum hennar. Þar sem ekki er spáð miklu útveðri þá verður þetta mikil nautnahelgi, góðs matar, sjónvarpsgláps, spilastunda og náttúrulega ögn af rauðvíni fylgir. Ég er búin að hlakka mikið til þessarar helgar þó sérstaklega eftir að afi minn féll frá.

Það sem hefur verið að gerast hjá mér bara síðustu daga að ég bætti smá verkefni á mig. Ég talaði við Garðar Cortes og spurði hvort ég mætti syngja með í Mozart Requiem sem flutt verður í byrjun desember rétt eftir miðnætti. Svarið var já, þannig að nú er ég aðeins að syngja með óperukórnum í þessu verkefni. Kosturinn er að ég kann verkið utanað og þarf eingöngu að einbeita mér að því hvernig Garðar vill flytja verkið. Mér þykir ofboðslega vænt um þetta verk og svo er verið að minnast þeirra tónlistarmanna sem hafa unnið með óperukórnum og hafa látist á árinu og þar er afi minn einn þeirra. Þannig að mér þykir mjög vænt um að taka þátt í þessari uppfærslu. Hlakka mikið til og vona náttúrulega að sem flestir mæti. Síðan er voxið á fullu að æfa fyrir tónleikana 30 nóvember og ég er næstum því búin að læra þau verk utan að þannig að ég er farin að geta einbeitt mér meira að því hvernig Tumi vill flytja þau verk. Þannig að næstu vikur verður mikið um söng, tala nú ekki um ef ég fæ smá tíma hjá Nonna söngkennara til að bæta mig sem söngvara. Miklar framfarir hjá mér og nóg að gera. Smá fréttir af einsöng þá er einn í kórnum mínum organisti hjá óháða söfnuðinum og ég bað um fleiri verkefni þaðan, svo við ætlum að byrja að vinna að einhverjum flottum verkum eftir jól og þá vonandi halda tónleika. Hann er líka með kór þannig að hver veit hvað verður úr því, minnsta kosti er ég mjög spennt fyrir þessu. 

Jæja, þá er komið að því að fara að skrá niður hluti sem þarf að pakka niður og kaupa fyrir ferðalagið í bústaðinn. 

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar og þakka hlýjar kveðjur til mín og fjölskyldu síðustu daga. 


Kveðja til afa, Guðmund Jónsson

Við kveðjum í hinsta sinn með miklum söknuði hann afa okkar, vel vitandi að hann er komin á góðan stað. Okkur langar að minnast tíma okkar á Hagamelnum og þeirra frábæru stunda sem við áttum þar með afa og ömmu. Hagamelurinn var okkar annað heimili og þar fengum við oft að gista. Þá sá afi um að viðhalda barnatrúnni og fór með faðirvorið með okkur þegar kominn var háttatími. Hann var líka duglegur að stunda sundið og við fengum oft að fljóta með. Afi þekkti alla á leiðinni út í Vesturbæjarlaug og við munum vel hvað við vorum stolt þegar hann kynnti okkur fyrir fólkinu og sagðist vera svo ríkur að eiga okkur. Það var fátt sem haggaði afa og hann tók flestu með stóískri ró. Einu sinni sem oftar fengum við að fara með afa á tónleika. Hann var að fara að syngja í óperunni Ótelló í Háskólabíó, uppáklæddur í kjól og hvítt. Á leiðinni út í bíó var keyrt inn í hliðina á volvónum. Afi steig út úr bílnum alveg pollrólegur. Hann sagði mönnunum að hann væri smá tímabundinn, væri að fara að syngja og þetta yrði bara leyst seinna. Stuttu síðar var afi mættur á réttum tíma og tróð upp án þess að láta nokkuð á sig fá. Svo blikkaði hann til okkar í miðju klappi, en það gerði hann oft. Ein jólin var mamma með ákveðið þema í gangi heima hjá okkur og allt var skreytt í rauðu, grænu og könglum. Þá fórum við bara til ömmu og afa og skreyttum tréð hjá þeim. Þar voru jólakúlurnar marglitar og af ýmsum gerðum. Á jóladag fórum við alltaf með afa niður í Útvarp á jólaball. Það fannst okkur frábært og eftir ballið sá afi um að útdeila “slikkeríi” og jólaeplum til allra krakkanna. Afi var ekki mjög handlaginn en hann var hins vegar einstaklega góður í að pakka fyrir ferðalög. Einu sinni vorum við að fara austur í bústað í Laugardalnum og afi var búinn að troða svo miklu í skottið að bílinn tók niðri í fyrstu beygju. Þá var snúið við, létt aðeins á farminum og farnar tvær ferðir. Minningarnar eru margar og góðar og þegar við byrjuðum að rifja upp æsku okkar í sameiningu komu endalaust fleiri upp í hugann og við fylltumst gleði og þakklæti. Hann var afi okkar og lét okkur aldrei gleyma hversu vænt honum þótti um barnabörnin sín. Elsku afi, við þökkum þér og ömmu samfylgdina. Við erum rík að hafa átt ykkur.

Þóra og Mummi


lífið og tilveran og tenórleysi :)

Loksins sest ég smá stund niður og skrifa um það sem hefur gerst hjá mér uppá síðkastið.

Þann 11. október eignaðist ég frænda í Austurríki. Ute systir eignaðist sinn annan son sem var nefndur Leonhard. Þeir bræður hafa falleg og stór nöfn því eldri strákurinn heitir Konstantin. Svo nú þarf stóra frænka að fara í 66° norður að kaupa vetragallann á strákinn svo honum verði nú ekki kalt.

Síðan er ég byrjuð að reyna að koma mér aðeins á framfæri og hef fengið tækifæri í að syngja einsöng í messum. það hefur gengið mjög vel og ég hef haft mikið gaman af því. Mikið að gerast raddlega og röddin að stækka mikið. Það gæti komið til þess að ég skoði að fara í meira nám, erlendis. En svo stóra ákvörðun þarf að hugsa vel því margt þarf að skoða, þá sérstaklega hvað varðar dóttur mína. Þannig að núna stend ég á ákveðnum tímamótum og er ekki alveg viss um hvort ég tek hægri eða vinstri beygju. Það góða í þessu þó að það er komið vist sjálfstraust í mig hvað varðar sönginn og mér líður voðalega vel. Kennarinn minn er einstaklega góður og síðan hef ég notið stuðnings Gerrit hvað varðar tónlistina sem ég er að syngja.

Svo er kórinn komin á fullt, það eru tónleikar hjá okkur 30. nóvember í Langholtskirkju kl: 20.00. Við ætlum að flytja Gloriu eftir Poulenc og Une Cantate des Noel eftir Arthur Honegger, auk þess sem teknir verða kafli úr Magnificat eftir Bach og svo Hallelúja kórinn úr Messías eftir Handel. Við erum með 2 einsöngvara, Bylgju Dís sópran og Benedikt barítón, auk þess sem 50 meðlimir sinfóníuhljómsveitar Íslands spila með okkur undir nafninu Jón Leifs Camerata. Þetta verða æðislegir tónleikar. Æfingarnar hafa gengið mjög vel en það er búið að vera vandamál hjá okkur eins og mörgum öðrum kórum hvað fáir tenórar eru í blöndum kórum. Hér með auglýsir Vox academica eftir tenórum og vil ég vinsamlegast biðja þá sem hafa áhuga á að vera með okkur að hafa samband á voxacademica@gmail.com . Það er síðan spurning hvort hann Kári Stefánsson geti skoðað þetta gen sem tenórar eru með og kannski komið með tillögur að úrbótum. Þó svo að það sé of seint fyrir okkur núna. Kórinn er nefnilega að fá frábæra dóma og í raun eina gagnrýnin sem við fáum er karlahallæri eða karlaleysi og okkur langar svolítið að breyta þessu.

Annars er lífið nokkuð frábært og leikur það við mann. Dóttur minni gengur rosalega vel í skólanum og er hún mjög ánægð með sig, lífið, fjölskyldu sína og félaga. Hún stækkar ört og er mikill gleðigjafi. Við erum búnar að vera að vinna saman að því að búa til jól í skókassa og munum við skila því inn seinna í dag eða á morgunn. Svo er pabbi Ástríðar að flytja í vesturbæinn og kominn í sama skólahverfi þannig að við mæðgur erum glaðar yfir því. Auðveldar lífið og gerir allt miklu þægilegra fyrir alla. Við vonum að vesturbærinn verði honum jafn góður og hann hefur verið fyrir okkur mæðgurnar.

Gangið hægt um gleðinnar dyr og njótið helgarinnar með góðu og skemmtilegu fólki.Smile


Um bloggið

Þóra H. Passauer

 

Þóra Hermannsdóttir Passauer
Þóra Hermannsdóttir Passauer

39 átta ára gömul á dóttur sem heitir Ástríður. Einnig á ég frábæra vini, er í skemmtilegum og góðum konsert kór og þegar ég er ekki í vinnunni þá er ég að læra að syngja, halda heimili, út á KR, í Ketilbjöllum og að njóta lífsins.

Ps. Elska að bjóða skemmtilegu fólki í mat og spjall.

Nóv. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • Helena og Ástríður sumarið 2008
  • Ástríður og Helena sumarið 200
  • Vox academica

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband