19.8.2007 | 10:29
Masterklassi á Mön hjá Sólrúnu Bragadóttur framhald
Vikan hjá Sólrúnu var vel skipulögð og var mikið unnið bæði raddlega, andlega og svo að tónlistinni. Eftir morgunnverð þá var Birna tilbúin með andlega þáttinn og fórum við í allskonar verkefni út frá íhugun, leikjum og fleiru. Við vorum látin lýsa því með því að lita á blað þá tilfinningu sem fundum út frá orði sem við drógum. Þessa viku var mikið litað og komu listrænir hæfileikar okkar við teikninguna misjafnlega fram. Ég komst t.d. að því að ég hef mjög litla hæfileika á þessu sviði. En hvað um það ég lærði að tjá tilfinningu með litum og fannst þetta nokkuð skemmtilegt. Við fórum líka í alls konar leiki, við tókum tónlistina sem við vorum að vinna með og útskýrðum hvernig við upplifðum hana, hvers konar liti við sæjum í tónlistinni, hvað hún gæfi okkur og hvernig við vildum koma henni á framfæri. Við lærðum ansi mikið að vinna með tilfinningar okkar, hvernig við getum notað þær tilfinningar frá eigin upplifun við að vinna verkefni, hvernig við getum losað okkur við tilfinningar sem eru fastar hjá okkur og gefa okkur hnút í magann. Hvernig við getum lært að einbeita okkur að okkur sjálfum fyrir tónleika og á þessum stutta tíma gerði ég mér grein fyrir vinnunni sem þarf að vinna til að verða góður söngvari.
Eftir þennan tíma þá var yfirleitt farið í að vinna með röddina okkar. Við vorum öll á misjöfnu stigi hvað var sönginn og þ.a.l. var ekki unnið með okkur á sama hátt. Hvað mig varðar þá er ég búin að vera í mörg ár að læra, klárað burtfararpróf, hætt að læra og verið í frábærum kór sem heitir Vox academica. Fyrir ári síðan byrjaði ég aftur í söngtímum hjá Jóni Þorsteinssyni og gerði mér grein fyrir í fyrsta skipta að ég er með góða rödd, að öllum líkindum er hún alt og að hún er stór. Þetta ár er ég búin að vera að vinna að því að laga það hvernig ég syng og lagfæra þá vitleysur sem ég hef lært. Þetta er verkefni til einhvers tíma og ég verð að vera þolinmóð hvað það varðar og ætla ég að gera þessa vinnu og þetta ferli eins skemmtilegt og möguleiki er á. Svo ég fari aftur að námskeiðinu hjá Sólrúnu, þá hafði vinnan með Jóni hjálpað mér rosalega til að skynja hvað ég þurfi að gera til að stækka röddina og fá meiri hljóm í hana. Sólrún og Jón eru með svipaðar kröfur hvað varðar tækni og leiðbeina á mjög svipaðan hátt. Það small margt hjá mér þessa vikuna, og tilfinningin sem ég fann þegar ég var að syngja rétt var eins og ég svifi á einhverju skýi . Þessi tilfinning er alveg æðisleg og erfitt að útskýra, eins konar "rush" og vil ég gjarnan vinna að því að finna hana oftar. Þannig að þessi vika var mjög þétt í vinnu með röddina, svo unnum við líka með Semion sem var meðleikari okkar. Hann er sérstakur og yndislegur maður, sem gerði miklar kröfur á okkur hvað varðar að flytja músíkina á réttan hátt. Ég vann 5 verk, Tonerna lag eftir Sjöberg, Den första kyssen lag eftir Sibelius, Verborgenheit eftir Hugo Wolf, Sequidille úr Carmen eftir Bizet og að lokum Che faro senza Euridice úr Orfeu eftir Cluck. Öll þessi verk gera kröfur og lýsa mér nokkuð vel. Ég tók nefnilega eftir því að við veljum okkur oft verk eftir því hvernig okkur líður.
Að lokum get ég sagt að tónleikarnir sem við héldum í lok námskeiðsins tókust mjög vel og er ég nokkuð ánægð með mína frammistöðu, náði að læra allt utan að, vinna eins vel og ég gat að tónlistinni, flutningurinn á verkunum var ágætur, röddin ekki alltaf á sínum stað, en ég sá og fann að ég er enn að læra þannig að kröfurnar verða að vera á svipuðum slóðum. Ég er staðráðin í því að halda þessari vinnu áfram og ég er nokkuð viss um að ég reyni að fara að ári liðnu til Sólrúnar aftur á Mön ef hún heldur þetta námskeið því það var yndislegt að vera þarna og eiga þau Sólrún og Thomas maður hennar hrós skilið fyrir gestrisni og þökk fyrir yndislega viku.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:31 | Facebook
Um bloggið
Þóra H. Passauer
Bloggvinir
Alls konar upplýsingar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.